7. bekkir í tækni-LEGO
Líkt og undanfarin haust hafa 7.bekkingar unnið verkefni um orku, orkunýtingu og orkugjafa. Þeir nota tækni-LEGÓ og byggja orkuver sem breytir vindorku, sólarorku eða vatnsorku í raforku. Í þessu ferli fara nemendur nákvæmlega eftir vinnuteikningum og átta sig á hvernig hægt er að breyta orku úr einni mynd í aðra. Þegar orkuverin hafa staðist prófun hanna nemendur tæki að eigin vali sem nýtir raforkuna til að kveikja ljós eða koma einhverju á hreyfingu. Tækin eru prófuð inni eða úti eftir því sem við á. Samhliða þessu vinna nemendur með ýmis hugtök s.s. endurnýjanlegir orkugjafar og sjálfbær þróun og velta fyrir sér möguleikum á orkusparnaði. Sérstaklega íhuga þeir hvernig umgengnisvenjur okkar hafa áhrif á útgjöld heimilanna og umhverfi okkar (Græn skref).
Í lokin kynna nemendur verkefni sín fyrir bekkjarfélögum og ræða kosti og galla mismunandi orkugjafa m.a. með tilliti til umhverfisáhrifa s.s. lífríkis og loftslags. Verkefnið samþættir nám í náttúrugreinum og samfélagsfræði.