Kennsla

Nám nemenda í legóþjarkagerð á að einkennast af leik, sköpun, samvinnu og samskiptum. Vinnuferlið byggir á hugmyndum Dewey um ferli ígrundunar sem kallar fram og þjálfar gagnrýna hugsun og meðferð röksemda, áherslu á sköpun og frumleika. Til að gera þetta sýnilegra er hér að neðan kennslufyrirkomulag sem er í þessum anda og byggir á nálgun sem LEGO Education leggur upp með. Kennsluskipulaginu er skipt í fjóra hluta eða þætti: Kveikju, framkvæmd, mat og framhald.

Kveikja

tolvukarl Fotor

Í upphafi hvers verkefnis er mikilvægt að vera með góða kveikju til að draga athygli nemenda að efninu og vekja áhuga. Kveikjur geta verið af mörgum toga, höfðað til reynslu nemenda, falist í stuttum kvikmyndum, verið klípusögur, leikir, hlutverkaleikir, byggst á innlifunaraðferðum eða falist í tilraunum. Fjölmargar aðrar kveikjur væri hægt að nefna. Sem dæmi má nefna spurningar eins og þá hvert sé uppáhaldsvélmenni nemenda. Rosie í The Jetsons, Optimus Prime í Transformers, R2-D2 og C3PO í Star Wars, Wall-E frá Disney, Data í Star Trek eða Terminator? Annað dæmi væri að biðja nemendur að „forrita“ hver annan. Nemendur skiptast þá á að leika vélmenni sem skilur fimm skipanir og ekkert annað. Skipanir gætu til dæmis verið þessar: A. Snúa 90° til hægri. B. Snúa 90° til vinstri. C. Hægri fótur fram fyrir þann vinstri. D. Vinstri fótur fram fyrir þann hægri. E. Stopp. Í námsefninu sem fylgir settinu Lego Education WeDo eru myndbútar sem hægt er að nota í kveikjur. Þar birtast persónurnar Mia og Max og sýna hvernig þjarkarnir virka eða lenda í aðstæðum sem kalla á úrlausn nemenda. Svo er einnig að finna myndina Hvað er þjarki? á vefsíðunni sem má nota sem kveikju.