Mat

legokrakkar1Þegar verkefninu er „lokið“ og nemendur búnir að láta reyna á byggingu, forritun og hönnun þjarkans er gott að virða fyrir sér útkomuna, gaumgæfa hina vélrænu högun, velta fyrir sér hvað nemandi hafi lært, hugleiða hvort einhverjar reglur séu algildar, hvort nefna megi lögmál í því sambandi og þar fram eftir götum. Í þessu ferli tengir nemandinn við fyrri þekkingu, bætir við hana og öðlast dýpri þekkingu á viðfangsefninu. Á meðan á verkefninu stendur er því afar mikilvægt að nemendur skrái hjá sér hvaða áhrif til dæmis ólík samsetning véla, gíra eða kambhjóla hefur á hreyfingu hlutarins eða þjarkans.

Í lokin er mikilvægt að hver hópur kynni sitt verkefni og niðurstöður. Gott er að búa til smá sýningarsvæði í stofunni þannig að hver hópur geti kynnt sitt verkefni og sagt frá því hvað á að gerast hjá þjarkanum, hvað hópurinn þurfti að lagfæra og hvers hann varð vísari og svo sýna þjarkinn og sannreyna hann. Með því að draga verkefnavinnuna svona saman fá nemendur góða yfirsýn yfir ferlið. Um leið er opnað á að allur bekkjarhópurinn geti komið með ábendingar að lausnum og lýst skoðunum á útfærslum einstakra hópa. Jafnfram gefst kennaranum með slíkri kynningu tækifæri að til meta þekkingu, leikni og hæfni einstakra nemenda.