Skoðum WeDo-þjarka!

Uppbyggingu og virkni þjarka má skipta í þrennt, það er skrokk, stýribúnað og hegðun.

Ef við skoðum þetta út frá WeDo-legóþjörkunum, þá er skrokkurinn gerður úr kubbum. Hægt er að láta hann líta út eins og hver og einn kýs ef þess er bara gætt að þjarkinn geti framkvæmt það sem hann á að gera.

Annar hluti þjarkans er stýribúnaðurinn en honum má skipta í þrennt. Fyrst er það ílag, allur búnaður sem borið getur boð til þjarkans. Í WeDo-settinu er gert ráð fyrir þremur ílagstækum. Tölva getur sent þjarkanum boð en að auki eru í settinu sjálfu bæði hreyfiskynjari og veltiskynjari. Hreyfiskynjari ber boð um hluti sem eru í allt að 15 -sm fjarlægð. Veltiskynjari gefur til kynna í hvaða átt skynjaranum er velt, til hliðanna, upp og niður, kyrrstöðu eða hreyfingu. Lyklaborðið á tölvunni er hluti af ílagstækjum en hægt er að nota lyklaborðið til að kalla fram ólík forritunarststef eða svo kallaðar stefjur. Einnig er hljóðnemi tölvunnar hluti af ílagstækum þjarkans. Frálagstækin eru tvö, hreyfill sem fær kraft úr USB-tengikubb frá tölvu (5v) og tölvan, það er skjárinn og hátalarar tölvunnar. Þriðji þátturinn í stýribúnaði þjarkans er forritið eða stefjurnar sem skilgreina hegðun hans. Forritunarumhverfið er myndrænt og byggir á smella-draga-sleppa (e. drag-and-drop) notendaviðmóti.

Þriðji hluti þjarkans er svo hegðun. Hún fer eftir því hvernig skrokk og stýrisbúnaði er ætlað að framkvæma verkefnið sitt og bregðast við áreiti.